19. aldar peysuföt

Peysan blá eða svört

Á 19. öld var peysufatatreyjan saumuð úr ull; klæði eða vaðmáli og gat verið blá eða svört. Pilsið var ekki endilega saumað úr sama efni.

Peysan er með lítið kringdu hálsmáli og með ísettum ermum með litlu sem engu púffi. Á boðungum eru ásaumaðir flauelisrenningar, frekar breiðir. Einnig eru flauelisrenningar framan á ermum. Peysan er krækt að framan nema yfir hábarminn. Þar myndast smáopnun og glittir í hvítt brjóst.

Brjóst og klútur

Undir peysunni hefur upprunalega verið hvít nærskyrta. Hún þróaðist síðar í  lítið hvítt stífað léreftsstykki sem kallast brjóst. Þetta stykki er skreytt á ýmsan máta með ásaumaðri blúndu, handunninni eða innfluttri. Það finnast einnig brjóst með fögrum útsaumi. Brjósin eru langoftast hvít en þó má finna svört brjóst.

Í hálsmáli var borinn silki- eða bómullarklútur sem var brotinn saman í horn. Klúturinn var síðan brotinn þannig að breiddin yrði ca 4-5 sm. Hann var svo hnýttur með endana til hvorrar hliðar.

Kona í 19. aldar peysufötum

Hanna Lind í 19. aldar peysufötum. Undir peysunni er lítið hvítt stífað léreftsstykki sem kallast brjóst

19-aldar-peysuföt

 Við 19. aldar peysuföt er borin djúp prjónuð húfa með ullarskúfi sem getur verið svartur eða í lit

19.aldar peysuföt

 Einkenni pilsins er fjöldi falla á bakhluta þess

Húfan

Við 19. aldar peysuföt er borin djúp prjónuð húfa með ullarskúfi sem getur verið svartur eða í lit.

Húfan er höfuðbúnaður sem konur hófu að bera um aldamótin 1800 þegar þær prjónuðu sér bláar húfur að hætti skólasveina. Á efri enda húfunnar var settur lítill skúfur í ýmsum litum og yfir samskeytin silfurþráður. Þróun húfunnar var mikil á þessum tíma og náði hún miklum vinsældum.

Um miðja 19. öld var húfan orðin svört, grynnri og með lengri ullarskúf. Yfir samskeytin var kominn hólkur úr silfri eða öðrum málmi. Í lok 19. aldar var húfan orðin grunn með svörtum silkiskúf.

Pilsið og svuntan

Pilsið er saumað úr tveimur síddum af efni sem er a.m.k. 140 sm á breidd. Efnið er fellt þannig að það passi í mitti konunnar. Einkenni pilsins er fjöldi falla á bakhluta þess.

Aðferðin við að fella pilsið hefur þróast mjög í gegnum árin. Ekki hægt að segja að nein ein aðferð sé rétt. Gjarnan er settur vasi á pilsið og að neðan er það faldað með ca 30 sm skófóðri.

Svuntan er gamall nytjahlutur sem hefur fylgt kvenbúningum um aldaraðir. Svuntan er höfð styttri en pilsið. Hún er einnig styttri í mittið þannig að föllin aftan á pilsinu sjást vel. Svuntan er fest saman í vinstri hlið með hnappi eða svuntupari.

Konur báru heimaofnar svuntur hvunndags. Fínt þótti að eiga betri svuntu úr innfluttu efni til spari. Svuntur við 19. aldar peysuföt voru gjarnan teinóttar eða köflóttar.

Framleiðsluþróunin réð því hvað var í tísku. Finna má gamlar svuntur úr þeim efnum sem flutt voru inn til fatagerðar. Varðveist hafa slifsi og svuntur með ámáluðu mynstri sem voru unnin hér á landi.

Skartið

Skartið við 19. aldar peysuföt er aðallega hólkur á húfu. Brjóstnæla og svuntuhnappur eða svuntupör til að halda svuntunni saman að aftan. Ekki var til siðs að bera belti við 19. aldar peysuföt. Á 20. öld fór einstaka kona að nota stokkabelti við peysufötin. Enn í dag eru deildar meiningar um hvort bera eigi belti við peysuföt.

Peysuföt 19. aldar