Faldafreyjur í Annríki

Faldafreyjur er hópur nemenda sem hafa lokið við gerð sinna búninga. Fald- og skautbúningsnámskeið byrjuðu í Annríki árið 2012. Um er að ræða þriggja ára námskeiðaröð. Þar fá nemendur  leiðsögn í gerð búninganna og handverki þeim tengdum. Það er ekki síður saga búninga sem skiptir miklu máli. Án rannsókna væri lítið hægt að aðhafast. Þær rannsóknir sem við höfum unnið í Annríki í áraraðir eru grunnurinn að öllu okkar starfi.

Ábyrgð og skuldbinding

Það gefur auga leið að það er mikill tími sem fer í gerð slíkra búninga og kostnaður er talsverður. Það er því mikil skuldbinding og ábyrgð bæði fyrir okkur í Annríki og nemendur sem felst í samstarfinu. Á þessum árum sem liðin eru hafa um 70 konur hafist handa á saumaskapnum. Nokkrar hafa helst úr lestinni vegna ýmissa orsaka en langflestar halda galvaskar áfram. Það er gleðiefni þegar nemendur ljúka þessum mikla áfanga með stórkostlegu listaverki sem hver búningur er. Nú þegar fylla hóp Faldafreyja um 25 konur.

Á þessum námskeiðum hafa nemendur eytt löngum tíma saman og með okkur hér í Annríki. Við viljum eiga vettvang til að hittast áfram. Starfa saman og gleðjast yfir fögru handverki og búningum. Sá vettvangur er nú til og var fyrsti hittingur Faldafreyja laugardaginn 25. mars 2017.

Rannsóknir og heimildir

Allt okkar starf hér í Annríki byggist á handverksmenntun okkar og rannsóknum sem við höfum stundað í áraraðir. Rannsóknir á varðveittum búningum og handverki sem við höfum unnið á Þjóðminjasafni Íslands og erlendum söfnum. Heimsóknir í flest söfn landsins skila einnig miklum heimildum í búningasjóðinn. Það gera einnig rannsóknir á varðveittum rituðum heimildum í Þjóðskjalasafni Íslands og víðar. Dánarbú, innfluttningsskýrslur, bréfaskrif og erlendar ferðabækur frá fyrri tímum skipta miklu máli. Síðast en ekki síst hefur samstarf við erlenda kollega fært okkur nýja sín á eigin sögu. Alls þessa fá nemendur okkar notið bæði í frásögn en ekki síður í handverksþekkingu við endurgerð búninganna.

Handlínur, lausavasi og undirpils

Í þessum fyrsta hittingi flutti Hildur fyrirlestur um handlínur. Það eru klútar sem konur báru við beltið. Uppruni þeirra er líklega tengdur kirkjusiðum. Handlínurnar hafa þá verið notaðar til að hylja vinnulúnar hendur fyrir almættinu. Þær geta verið fagurlega útsaumaðir ljósir hörklútar eða fagrir innfluttir silkiklútar. Einnig fjallaði Hildur um lausavasa og undirpils sem hún hefur verið að endurgera.

Faldafreyjur byrjuðu allar að sauma litla prufu með mynstri af handlínu. Þær völdu sér einnig lausavasa til að sauma út í. Vösunum munu þær ljúka við í næstu hittingum. Klæðskerinn í Annríki hefur átt annríkt undanfarna daga við undirbúning. Prenta þarf á prufur og vasa með olíumálningu sem er vandaverk. Að þessu sinni þurfti líka að draga upp mynstur og útbúa stimpla. Einsog einn nemandinn orðaði það svo frábærlega:  „Málarinn hafði lokið við að skrapa, spartsla, grunna og skera línur. Nemendanna verk er að mála með rúllunni“.

Starf Faldafreyja

Hugmyndin er að fara smá saman í áðurnefnd verkefni. Af nógu er að taka á næstu árum. Hver veit nema Faldafreyjur muni líka spóka sig um Hafnarfjarðarbæ á björtum vordögum í sínum fögru faldbúningum. Ábyrgð okkar Faldafreyja er ekki síst að fræðast enn frekar um búningasöguna. Sögu sem við svo berum ábyrgð á að flytja út til sem flestra. Við tökum hlutverk okkar alvarlega og ætlum okkur stóra hluti. Það væri gaman ef aðrir áhugasamir um íslenska sögu vildu taka þátt í verkefninu með okkur. Umræða um arfinn er nauðsynleg, allan arf. Ólíkar skoðanir og fjörug skoðanaskipti eru nauðsynleg. Þannig yrðum við fróðari um íslenskt samfélag í aldanna rás. Við yrðum einnig fróðari um líf og verk forfeðranna, ekki síst formæðranna. Þannig getum við skapað sýn á fortíð fyrir framtíð. Þannig verðum við ríkari til hugar og handa.