Kyrtilnámskeið

hjá Annríki – Þjóðbúningar og skart

Þriggja ára námskeiðsröð eða styttra

Kyrtlar geta verið af ýmsum gerðum með mismunandi skreytingum. Sé kyrtill skreyttur með útsaumi og baldýringu fylgir hann þriggja ára námskeiðsröð. Sé hann lagður leggingum og snúrum er hægt að vinna hann á styttri tíma.

  • Saumaður er einn kyrtill
  • Nemandi fær búninginn tilsniðinn eftir máli
  • Námskeiðsröðin skiptist í nokkur námskeið eftir því hvernig búning skal sauma
    • Útsaumur, baldýring, höfuðbúnaður og samsetning er meðal námskeiða
  • Hafist handa við útsaum í pils eða leggingar með snúrum
  • Baldýringu má nota á belti eða nota stokkabelti
  • Saumaður er höfuðbúnaður, skautfaldur og blæja
  • Við höfuðbúnað er notuð spöng, koffur eða stjörnuband
  • Skart við kyrtil er næla, belti og spöng, koffur eða stjörnuband
  • Búningurinn er saumaður úr bestu fáanlegum efnum t.d. ullarefni, satíni og crepe
  • Sérhæfð efni og tillegg er til sölu í Annríki

Ekki er mögulegt að setja nákvæmt verð þar sem mismunandi leiðir eru farnar við gerð kyrtilsins.  Grunnkostnaður á námskeiðum og efnum gæti verið á bilinu 300 – 500.000 kr eftir því hvaða leið er valin. Verð á skarti er þar fyrir utan.

Leiðbeinendur eru Guðrún Hildur Rosenkjær, klæðskeri, kjólameistari og sagnfræðingur og Olga Kristjánsdóttir, kjólasveinn.

Annríki - Þjóðbúningar og skart. Fjallkonan Katrín, uppá búin kyrtli. Skátar standa sitthvoru megin við með íslenska fána.

Katrín Ósk í kyrtli, glæsileg fjallkona í Hafnarfirði á 17. júní 2015

Annríki - Þjóðbúningar og skart. Snúrulagt flauelisbelti með gylltu beltispari skreyttu víravirki

Snúrulagt flauelisbelti með beltispari

Skrá mig á námskeið

Nánar um kyrtil

Kyrtill

  • Kyrtill var hugsaður sem heilsniðin ökklasíð flík. Þröngur yfir axlir en víkkar niður að faldi. Hann er með ísettum ermum sem víkka fram á við. Hann hefur einnig verið saumaður sem efrihlutur og pils. Kyrtillinn er saumaður úr léttari efnum en skautbúningur. Nota má létt ullarefni, satín og crepe. Hann getur verið í ýmsum litum t.d. svartur, ljós kremaður, blár og grænn
  • Skreytingar eru saumaðar á berustykki, framan á ermar og neðan á fald. Mynstur og skreytingar geta verið ýmiskonar.  Allar skreytingar eru huldar á bakhlið með fóðri

Höfuðbúnaður

  • Skautfaldurinn er alltaf hvítur. Nokkurskonar húfa úr bómull fyllt upp með tróði, oft ull áður fyrr. Til að stífa faldinn er notaður pappi og stundum teinar. Utan yfir faldinn er önnur hvít húfa úr silki eða fínni bómull sem liggur laus nema fest niður að aftan. Faldurinn er festur í hárið með kambi og spennum
  • Blæja úr tjulli er sett yfir faldinn. Hún er títuprjónuð í ytri húfuna neðst við höfuðið. Áður er hún dregin saman með þar til gerðu bandi svo hún passi utan um faldinn. Tjullið er oftast úr bómull eða silki en nú er einnig notað polyestertjull. Blæjan getur verið með ídregnu blómamynstri úr hvítum fínum þræði og nánast alltaf með blúndu í útbrún
  • Hnúturinn er slaufa sem útbúin er úr fallegum hvítum eða ljósum satínborða. Hann er festur að aftan með títuprjónum og hylur þannig samskeyti blæju og spangar/koffurs/stjörnubands

Skart

  • Spöng, koffur eða stjörnuband er sett utan um höfuðbúnaðinn. Hnýtt saman að aftan  og hvílir á höfðinu
    • Spöng er heil örlítið sporöskjulaga kóróna smíðuð úr silfri. Gyllt ef þess er óskað. Hún er oftast óskreytt fyrir utan mynsturkant í neðri brún. Hún getur þó verið skreytt með ágröfnu blómamynstri, víravirki og jafnvel loftverki
    • Koffur er samansett úr miðjustykki að framan sem rís nokkuð hátt. Til hliðar eru 3-4 minni stykki sem hlekkjast saman.  Koffrið er oftast skreytti víravirki og undir eru sléttar plötur
    • Stjörnuband er stífað hvítt léreftsband u.þ.b. 3-4 sm á breidd. Á það eru festar stjörnur eða önnur smástykki svo úr verður langur renningur
    • Spöng og koffur er oftast borið utan um fald og blæju, en stundum undir tjulli. Stjörnuband sést mjög oft á gömlum myndum undir tjullinu
  • Belti getur verið flauelisbelti með baldýringu eða snúrulögðu mynstri. Beltið er haft í sama lit og kyrtill og er með beltispari. Einnig eru notuð stokkabelti eða sprotabelti. Steypt eða skreytt víravirki
  •  Næla er borin til skrauts í hálsmáli treyjunnar

Kyrtilnámskeið