Faldbúningur

Sagan

Fólk hefur alltaf borið einhvern fatnað. Búninga sem þróast á löngum tíma. Á tímum landsnámsmanna notuðu víkingar heilar flíkur, kyrtla. Faldbúningar eru þeir búningar nefndir sem íslenskar konur báru á 17., 18 og fram á miðja 19. öld. Nafnið er dregið af höfuðbúnaðinum, faldinum.

Ekki er fullkomlega vitað hvenær konur hófu að nota tvískipta búninga. Upphlut og niðurhlutur.  Faldbúningar hafa þróast yfir langan tíma vegna ýmissa áhrifa. Tíska og framboð á vöru til fatagerðar hafa alltaf mikil áhrif á þróunina. Verslunarhöft og einokun setja svip á búningasöguna á 18. öld.

Iðnbyltingar á þessum tíma hafa einnig haft þar mikið um að segja. Vefnaðaraðferðir þróuðust sem gerðu mögulegt að vefa þynnri og fjölbeyttari efni.

Litunaraðferðir á efnum þróuðust. Litir sem áður voru fágætir varð mögulegt að lita á ódýran máta. Á 19. öld losnaði um verslunarhöft.

Siglingar með fólk og vöru stórjókst til landsins. Þar með jukust erlend áhrif mikið á allt líf fólks í landinu.

Annríki - Þjóðbúningar og skart. Faldbúningur. Höfuðbúnaður frá mismunandi tímabilum.

Olga Kristjánsdóttir og Sigríur Karen Samúelsdóttir í faldbúningi eldri

Annríki - Þjóðbúningar og skart. Faldbúningur Rannveigar Filipusdóttur Sívertsen

Margrét Sigurðardóttir í faldbúningi yngri

Annríki - Þjóðbúningar og skart. Faldbúningur Rannveigar Filipusdóttur Sívertsen

Svuntu- og ermahnappar á faldbúning

Heimildir á 18. og 19. öld

Heimildir um faldbúninga á 18. öld er að finna í rituðum heimildum og ferðalýsingum. Ferðamenn sem sóttu Ísland heim á 18. og 19. öld skrifuðu gjarnan bækur um ferðir sínar.  Þar er oft að finna greinargóðar lýsingar og teikningar sem koma að góðum notum.

Dánarbú og dómabækur eru góðar heimildir um margt sem viðkemur lífi fólks. Þau rit eru einnig aðallega frá 18. og 19. öld. Innfluttningsskýrslur varðveittar á Þjóðskjalasafni Íslands bera í sér mikinn fróðleik. Þar er að finna upplýsingar um efni og tillegg til fatagerðar á 18. öld.

Á Þjóðminjsafni Íslands er einnig að finna talsvert af faldbúningum þó aðallega búningahlutum frá 19. öld. Lítið hefur varðveist af eldri fatnaði.

Þróun og áhrif á 19. öld

Saga faldbúninganna hefur að mörgu leiti verið hulin okkur Íslendingum.

Um 1860 varð mikil breyting á íslensku kvenbúningunum með tilkomu Sigurðar „málara“ Guðmundssonar. Á þeim tíma var mikil umræða á Íslandi. Hún snérist um hvort konur ættu að leggja búningunum og taka upp „danska“ tísku.

Sigurður skrifaði ritgerðina  „Um kvenbúninga á Íslandi að fornu og nýju“. Hún birtist í Ný félagsrit 1857. Þar lagði hann til breytingar á gömlu faldbúningunum. Konur tóku því fegins hendi. Hann hvatti konur til að halda áfram að vera í þjóðlegum búningum. Þannig myndi handverksþekking þeirra fá áfram notið sín.

Nýi búningurinn var fyrst nefndur faldúningurinn hinn nýji en síðar „skautbúningur“.

Skautbúningurinn varð gríðarlega vinsæll og á nokkrum áratugum hvarf gamli faldbúningurinn alveg.

Sigurður málari sem var einn af stofnendum Þjóðminjasafnsins 1863 lagði áherslu að safna gömlu faldbúningunum. Á safninu er talsverð búningaeign sem leggur grunn að öllu rannsóknarstarfi. Í þeim rannsóknum sem gerðar hafa verð á faldbúningum á 21. öld hefur sá sjóður skipt miklu máli.

Þeir búningar sem hafa varðveist eru allt sparibúningar með fínum skreytingum.  Gera má ráð fyrir að konur hafi notað búninga með sama sniði en minna skreytta hversdags.

 

 

Faldbúningur tvískiptur

Faldbúningur er tvískiptur búningur, upphlutur og niðurhlutur. Búningurinn samanstendur af nokkrum flíkumEfri hlutinn samanstendur af nærskyrtu, upphlut, treyju og kraga. Neðri hlutinn samanstendur pilsi og svuntu og undirpilsi (niðurhlutur).

Upphlutur

Innst er ljós nærskyrta úr lérefti, hör eða prjónuð. Afar einföld að allri gerð, unnin úr misstórum ferningum

Upphlutur er nokkurskonar korselett, reimað saman að framan með millum. Hann getur verið úr ýmsum efnum. Til dæmis ull, klæði eða vaðmál, damaski, silki eða flaueli. Upphlutur getur verð í ýmsum litum og snið með ýmsu lagi. Mittissíddin getur verið mislöng.

Bogar á baki eru mismunandi eftir tímabilum. Bakið er skreytt með þremur leggingum. Ein í miðju og bogar til hliðar við hana.  Samskonar skreytingar eru yfir axlarsauma.

Skreytingar geta verið flauelisleggingar með snúrum eða knipluðum tökkum utan með. Líeberíborðar silfraðir eða gylltir. Kniplaðar blúndur úr vírþræði eða silki. Á boðungum er svartur flauelisrenningur undir millum. Til hliðar eru líberíborðar silfraðir eða gylltir. Þar má líka sjá baldýraða borða í vír og silki.

Handvegur og hálsmál er bryddað með mjóu silki- eða ullarbandi í ýmsum litum.

Treyja

Stutt treyja, svört eða blá er borin utan yfir upphlut og skyrtu. Hún er oftast úr ull, klæði eða vaðmáli en einnig úr flaueli.

Hún er skreytt þremur leggingum á baki, öxlum og í handveg. Gjarnan voru mynstraðir flauelisborðar og oft snúrur lagðar utan með. Hún getur einnig verið lögð líberíborðum og kniplingum.

Á boðungum eru skreytingar t.d. innfluttir líberíborðar silfraðir eða gylltir.  Einnig handunnir borðar, baldýraðir eða skreyttir flauelisskurði og perlum eða snúrum.

Framan á ermum eru oftast flauelisleggingar. Treyjan er krækt saman að framan.

Annríki - Þjóðbúningar og skart. Perlusaumur í belti faldbúnings. Flauelisskurður og perlusaumur í treyju.

Skreytingar á upphlut geta verið líberíborðar. Steyptar millur með laufum og beltið er í víravirki

Annríki - Þjóðbúningar og skart. Perlusaumur í belti faldbúnings.

Þrjár leggingar eru á baki upphluts og treyju. Flauelisbeltið er perlusaumað

Annrík - Þjóðbúningar og skart. Faldbúningur yngri, niðurhlutur með leggingum í faldi.

Niðurhlutur skreyttur með leggingum og snúrum

Niðurhlutur

Undirpils var nauðsynlegt og jafnvel fleiri en eitt. Undirpils geta verið úr lérefti, ull eða prjónuð.

Niðurhlutur var pils og svunta á 18. öld. Þau geta verð rauð, blá, græn og svört. Svuntan var oft í öðrum lit en pilsið.

Pilsin voru úr ullarefnum klæði, vaðmáli eða damaski ull, silki. Þau eru skreytt með útsaumuðum blómamynstrum í ýmsum litum. Einnig geta pilsin verið skreytt með innfluttum leggingum og þá oft lögð snúra með fram. Litríkt ullarknipl er einnig notað til skreytingar á pils.

Á bakhlið eru allar skreytingar huldar með litríku skófóðri, oftast bómull.

Pils er fellt þétt undir streng. Faldur og hliðar eru bryddaðar með ullar- eða flauelisborðum í ýmsum litum. Svuntan er einnig feld undir streng og brydduð á sama máta. Svuntuhnappar eru saumaðir á strenginn, oftast þrír.

Samfella

Niðurhlutur þróaðist í eina flík um aldamótin 1800. Pils og svunta í sama lit er saumað saman svo úr verður samfella.

Samfella er alltaf svört eða blá og saumuð úr þéttu ullarklæði og damaski. Skreytingar eru samskonar og áður en mynstrin þróuðust samkvæmt tísku. Skreytingar á svuntu eru einnig hafðar stærri og hærri þannig að hún skeri sig úr. Einn svuntuhnappur er saumaður á streng svuntunnar.

 

Fylgihlutir

Lítill kragi er borinn við búninginn. Upphaflega var hann fastur við treyjuna og hélt uppi hvítum stífuðum kraga. Hvíti rúfkraginn varð síðar það sem við þekkjum sem prestakraga.

Konur fóru að skreyta litla kragann með ýmsum efnum og aðferðum. Efnið var flauel og damask oftast svart en líka í lit. Skreytt með baldýringu, knipli, flauelisskurði og perlusaumi. Kraginn er stífaður með pappa og bryddaður með flauelisborða eða silki.

Flauelisbelti voru algeng við búninginn. Þau geta verið skreytt með baldýringu í vír og silki, knipli og perlusaumi. Oftast svört, brydduð með silki í ýmsum litum.

Lausavasi kom í staðinn fyrir vasa á flíkinni. Þeir geta verið fagurlega skreyttir með útsaumi eða saumaðir úr efnisbútum (bútasaumur). Vasinn var með spottum í báðum hliðum og hnýttur utan um mittið. Hann var alltaf borinn undir pilsinu. Til að komast í hann var vasaop á pilsinu og klauf á samfellu.

Klútar úr silki eða bómull voru mjög algengir. Litríkir klútar voru notaðir til að binda í háls en dökkir klútar um höfuðbúnað. Ekki var óalgengt að konur ættu marga klúta

Handlínur eru klútar sem konur báru við faldbúningana. Handlína var borin við pilsið þannig að eitt horn hennar hékk yfir beltið. Oft var um að ræða fagurlega útsaumaða hörklúta. Einnig voru fallegir innfluttir klútar notaðir sem handlínur. Líklegt er að handlína hafi þjónað því hlutverki að hylja vinnulúnar hendur. Síðar hefur handlínan ekki síður verið borin til skrauts.

Annríki - Þjóðbúningar og skart. Faldbúningstreyja, flauelisskurður með perlusaumi. Kragi í stíl. Nælu er skartað með búningnum.

Kragi og boðungar skreyttir með flauelisskurði og perlusaum

Annríki Þjóðbúningar og skart. Auður með höfuðbúnað við faldbúning.

 Auður í faldbúningi yngri með spaðafald. Klútur er bundinn utan um faldhúfuna svo spaðinn stendur upp úr

Höfuðbúnaður

Höfuðbúnaður af einhverju tagi var nauðsylegur til að hlífa fyrir kulda. Hvítur faldur hefur líklega þróast frá skuplu í krókfald á 18. öld og síðar í spaðafald á 19. öld.

Krókfaldur var vafinn upp með stífuðum tröfum, klútum úr ljósri bómull eða hör. Undir var faldhúfa sem hélt saman hárinu. Faldtröfunum var haldið saman með títuprjónum sem voru þarfaþing.

Krókfaldur þróaðist upp á við, stundum breiður og stundum mjór. Smá saman varð hann svo hár að nauðsynlegt var að stífa hann enn frekar. Fyrstu tilraunir til þess var að setja pappír inn á milli laga.

Þegar leið að 18. öldina fóru konur að hnýta klút um höfuðbúnaðinn næst höfðinu. Hlað var skart sem borið var utan yfir faldinn. Faldprjónum var einnig stungið í faldinn. Hvorutveggja til hátíðarbrigða.

Spaðafaldur varð til um aldamótin 1800. Krókfaldurinn hafði risið svo hátt að nauðsynlegt var að stífa hann. Faldurinn fékk þá nýtt útlit en hann rís mjór frá höfðinu, breikkar og bognar fram á við. Faldurinn er útbúinn úr teinum og stífum pappa. Þar utan yfir er lagt hvítt léreft. Yst er hör eða fínt léreft sem fest er með títuprjónum. Þannig er spaðafaldur sérstakur gripur. Festur með faldhúfunni sem er bundin utan yfir botn faldsins. Klútur er bundinn utan um faldhúfuna svo spaðinn stendur upp úr.

Um aldamótin 1800 byrjuðu konur að nota prjónaða húfu að hætti skólasveina. Í upphafi var hún djúp með litlum skúf og vírþræði eða líberíborða vafið yfir samskeytin. Smá saman lengdist skúfurinn og var gjarnan í lit.

Húfan var í upphafi blá en varð síðar svört. Yfir samskeyti húfu og skúfs var settur hólkur úr silfri með ýmsum skreytingum. Hún var borin við daglega búninga, peysuföt, en einnig við faldbúning.

Skart

Millur á upphlutunum gátu verið 8-14 stk. allt eftir stærð upphlutar og millanna. Langoftast eru þó 10-12 stk. á búning. Reim með nál er fest í auga einnar millunar til að reima upphlutinn saman.

Á 18. öld voru steyptar millur algengar en einnig handgerðar víravirkismillur þegar leið að 19. öldina. Algengast var að steypa millur úr silfri en þó eru varðveittar millur úr ýmsum málmum.

Steypt stokkabelti pg sprotabelti voru algeng á 18. öld. Stokkar voru oft skreyttir með fígúru- og dýramyndum. Víravirki, snúrulagt og kornsett er gömul aðferð og var einnig algengt. Víravirki formað með utanbeygjuvír og fínlegum innanbeygjuvír í uppfyllingar var einnig til á tímum faldbúninganna. Það hefur þó líklega orðið vinsælla þegar leið á 19. öldina. Belti með loftverki og drifsmíði finnast einnig.

Á skreytt flauelisbelti voru saumuð beltispör af ýmsum gerðum. Einnig var algengt að sauma ýmiskonar stokka og doppur á flauelisbelti.

Svuntuhnappar voru nytjahlutir sem saumaðir voru á svuntur. Á 18. öld voru þeir venjulega þrír, einn fyrir miðju og tveir í hliðum. Þeir lágu yfir beltið og héldu þannig svuntunni uppi. Þegar pils og svunta urðu að samfellu varð eingöngu einn hnappur eftir aðallega til skrauts.

Enn meira skart

Nælur geta verið af ýmsum gerðum, steyptar, snúrulagt og kornsett eða handunnið víravirki. Nælan er oftast fest í treyjuna fyrir neðan klútinn.

Ermahnappar voru saumaðir á ermar 3-9 stk. á hvora ermi eftir efnahag. Hnappar eru eingöngu til skrauts sem stöðutákn. Þeir hafa því líklega helst verið notaðir á mestu sparibúningana.

Hálskeðjur og festar voru af ýmsum gerðum. Stórir innfluttir krossar í miklum keðjum tíðkuðust á 18. öld. Einnig báru konur minni festar með skjöldum ýmiskonar. Þegar leið á 19. öldina fór skartið minnkandi og í dag er oft borinn lítill kross eða kúla.

Hlað er höfuðskraut sem borið var við krókfaldinn. Um er að ræða litla stokka hlekkjaða saman eða saumaða á léreftsrenning. Hlaðið er bundið saman að aftan. Líklega helst verið notað við hátíðlegar athafnir t.d. brúðkaup.

Faldpjónar eru litlar kúlur svipaðar erma- og svutnuhnöppum sem kveiktar voru á enda á prjóni. Slíkum prjónum var raðað í faldinn til skrauts við hátíðleg tækifæri.

Húfuhólkar urðu til með prjónahúfunni um aldamótin 1800. Hólkarnir hafa þróast gríðarlega í stærð og skreytingum á löngum tíma. Þeir eru oftast smíðaðir úr silfri en einnig öðrum málmum. Þeir geta verið skreyttir með einföldum krotuðum mynstrum, innfluttum galleríum og handunnu víravirki. Einnig hafa varðveist baldýraðir hólkar.

Annríki - Þjóðbúningar og skart. Beltispar og svuntuhnappar, gamalt víravirki, kornsett og snúrulagt. Gullsmiður Ásmundur Kristjánsson

Beltispar og svuntuhnappar í víravirki

Annríki - Þjóðbúningar og skart. Halla og Agla í faldbúningum yngri.

Halla og Agla í faldbúningum yngri. Skart með búningunum er margskonar. Flauelisbelti með beltispari er t.d. borið við búninginn

Faldbúningur