Útskrift og afmælisfögnuður Annríkis í Viðey 2016
Einn liður í öllu okkar starfi er að fagna loknum áföngum. Í lok allra námskeiða er boðið til útskriftar þar sem nemendur skarta sínum fögru búningum.
Í maí 2016 héldum við til Viðeyjar með fríðu föruneyti. Þar skyldi fagna útskrift nemenda af þjóðbúninganámskeiðum og nemendum í faldbúningsgerð. Ríflega 100 manns mættu til fagnaðarins í blíðskaparveðri. Við Annríkishjón fögnuðum einnig 5 ára farsælu starfi í góðra vina hópi.
Annríki 5 ára
Annríki – Þjóðbúningar og skart hóf opinberlega göngu sína 1. júní 2016. Á sólbjörtum degi opnuðum við dyrnar og buðum gesti velkomna. Allir eru velkomnir, jafnt fróðir og fróðleiksfúsir. Velkomnir til að skoða, ræða og njóta dásamlegarar búningsögu okkar Íslendinga.
Þjóðbúningakennsla í 15 ár
Þegar við Ási tókum þá ákvörðun að stofna okkar eigið fyrirtæki vissum við lítið hvað framtíðin bæri í skauti sér.
Ég hafði starfað við gerð þjóðbúninga og þjóðbúningakennslu í 15 ár. Þjóðbúningastofuna rak ég á árunum 2001-2011 og kenndi hjá Heimilisiðnaðarskólanum 1997-2011. Á þeim tíma hafði áhugi á búningagerð aukist og nemendum fjölgað.
Endurgerð faldbúninga
Áhuginn var mikill á endurgerð faldbúninga sem er stórbrotið verkefni. Það starf hófst um aldamótin 2000 og því hef ég fylgt allar götur síðan.
Eitt af mínum fyrstu verkefnum var að hefja endurgerð á Viðeyjarbúningnum fagra. Þann faldbúning saumaði Guðrún Skúladóttir, dóttir Skúla fógeta. Búningurinn er varðveittur í Victoria & Albert Museum í London þar sem ég hafði skoðað hann.
Þannig hófst þessi mikla ástríða og áhugi fyrir faldbúningum og handverki formæðranna. Þannig safnaðist upp þekking og reynsla sem nemendur hafa notið góðs af.
Sagnfræði og gullsmíði
Eftir því sem árin liðu fann ég fyrir þörf til að öðlast enn meiri þekkingu á sögunni. Árið 2008 hóf ég nám í sagnfræði við Háskóla Íslands. Það var stórt skref og krefjandi þar sem önnur verkefni voru ærin fyrir. En þá fór boltinn að rúlla. Nýr heimur opnaðist.
Nú kynntist ég formæðrum og –feðrum sem höfðu átt og notað búningana. Í gegnum allar dásamlegu heimildirnar varðveittar í rituðum textum og munum á íslenskum söfnum. Ekki síst Þjóðminjasafni Íslands þar sem við höfum notið velvildar og ánægjulegs samstarfs.
Árið 2009 hóf Ási gullsmíðanám. Hans markmið var að sérhæfa sig í rannsóknum og endurgerð búningaskarts frá fyrri tíð.
Annríki stofnað
En það var eitthvað meira sem vantaði. Meiri fræðslu og opnari umræðu. Við vildum deilda þeirri þekkingu sem við höfðum öðlast með öllum sem áhuga höfðu. Til þess var nauðsynlegt að breyta til.
Fyrirtækið var stofnað og fékk nafnið Annríki til heiðurs Guðrúnu Skúladóttur. Henni sem hafði setið löngum stundum við handverk í sínu „annryke“ í Viðey.
Fjöldi nemenda
Frá fyrstu stundu hefur leiðin legið fram á við. Fjöldi nemenda hefur sótt námskeið í búningagerð og handverki þeim tengdum.
Fjöldi gesta heimsækir okkar ört vaxandi búningasafn þar sem sagan og búningarnir öðlast samhengi og sagan fær á sig mynd. Þannig verður starfið lifandi. Við njótum handverksins og gleðjumst saman yfir okkar mikla menningararfi.
Fögnum áföngum
Einn liður í öllu okkar starfi er að fagna loknum áföngum. Í lok allra námskeiða er boðið til útskriftar þar sem nemendur skarta sínum fögru búningum.
Í maí 2016 héldum við til Viðeyjar með fríðu föruneyti. Þar skyldi fagna útskrift nemenda af þjóðbúninganámskeiðum og nemendum í faldbúningsgerð.
Ríflega 100 manns mættu til fagnaðarins í blíðskaparveðri. Við Annríkishjón fögnuðum einnig 5 ára farsælu starfi í góðra vina hópi.
Við þökkum öllum þeim sem hlut eiga að máli og hlökkum til komandi ára.