Faldbúningshópur 2017

Annríki í Annríki

Laugardaginn 25. mars 2017 var sannarlega annríki hér í Annríki. Dagurinn byrjaði með tíma hjá nýjum faldbúningshópi. Eftir hádegi hittust Faldafreyjur og nutu dagsins saman. Faldafreyjur eru þeir nemendur sem lokið hafa við gerð fald- og skautbúninga. Sá hópur stækkar óðum, nú þegar fylla þann hóp um 25 konur. Þær sem nú eru á slíkum námskeiðum munu bætast við á næstu árum.

Verkefni undirbúin fyrir nýjan hóp

Faldbúningsnemendur 2017 byrjuðu í janúar og tóku þá strax ákvörðun um hvernig búning þær vildu sauma. Af átta nemendum sauma tvær skautbúninga og hinar faldbúninga. Nemendur hafa nú þegar unnið prufur í útsaumi og valið sér mynstur. Einn nemandi ætlar að knipla neðan á samfellu. Hún hefur verið að æfa sig í því mikla handverki og gengur vel. Þrjár verða með flauelisleggingar sem eru handsaumaðar á pils og svuntu. Tvær þeirra verða einnig með aukasvuntu með útsaumi. Tveir nemendur sauma út í pils og svuntu. Skautbúningsnemendur munu sauma klassísk Sigurðarmynstur í sín pils.

Þetta eru fjölbreytt verkefni og undirbúningur mikill hjá klæðskeranum í Annríki. Öll pils þarf að sníða og undirbúa fyrir nemendur. Ef um útsaum er að ræða þarf að stimpla mynstur á pils og svuntur. Það er nákvæmnisverk því notuð er hvít olíumálning við ástimplunina. Því er nauðsynlegt að vanda verkið svo ekkert fari úrskeiðis þegar unnið er með verðmæt efni. Þetta þarf að gera nokkrum dögum áður svo málningin sé þornuð þegar nemendur fá pilsin í hendur. Allt gekk vel og nemendur eru byrjaðir á útsaumsferlinu.

Margar ákvarðanir framundan

Framundan eru mörg verkefni hjá nýjum hópi og margar ákvarðantökur. Litir og skreytingar á upphluti og faldtreyjur. Möguleikarnir eru fjölbreyttir, baldýring, flauelisskurður, knipl og líberíborðar. Hvernig skart skal notað við búninginn og hversu mikið. Sumir nemendur eru nokkuð vissir strax frá upphafi. Aðrir nemendur láta ferlið meira ráða því hvernig búningurinn mun líta út á endanum. Allt er þetta ágætt því nemendur vinna auðvitað misjafnlega. Á endanum rennur allt saman í fögrum búningi.

Nú þegar allir nemendur hafa fengið pilsið í hendur munu þær sækja almenna hittinga ásamt öðrum nemendur. Hittingar eru raunverulega hjartað í stóru námskeiðunum. Þar hittumst við öll sem höfum áhuga á þessum fögru, stórbrotnu listaverkum formæðranna. Þar fer fram fræðsla, umræða og skoðanaskipti sem skipta máli fyrir allt starfið. Við vinnum saman, svörum spurningum og ryðjum hindrunum úr vegi. Við njótum saman og gleðjumst yfir hverjum áfanga.

2021-06-21T15:13:08+00:0019. apríl, 2017|Námskeið|
Go to Top