Handverks- og búningakynning
Menningarheimsóknir áhugafólks hafa færst í aukana hjá okkur í Annríki. Við bjóðum uppá leiðsögn um búningana og sögu þeirra. Á undanförnum árum höfum við í Annríki unnið öttullega að því að safna búningum og fróðleik um þá.
Hildur hefur stundað nám í sagnfræði í Háskóla Íslands. Það hefur veitt okkur í Annríki tækifæri til enn frekari rannsókna. Það er virkilega ánægjulegt að upplifa hversu mikinn áhuga fólk sýnir störfum okkar, þekkingu og búningasögunni.
Menningarheimsóknir frá HÍ
Í dag tókum við á móti góðum hópi úr Háskóla Íslands, samnemendum Hildar úr sagnfræðinni og tveimur kennurum. Hildur sagði aðeins frá sögu fyrirtæksins og áherslum í starfi þess. Saga búninganna og þróun þeirra var sögð í stuttu máli svo gestirnir fengju innsýn í heim formæðranna. En með svo marga tilvonandi sagnfræðinga þótti okkur rétt að ræða búningana í ljósi sögunnar.
Spurningum velt upp
Við veltum upp spurningum sem lengi hafa brunnið á okkur. Hver er þekking þessa hóps á búningasögunni? Hvert er hlutverk búninganna fyrir heildarsöguna? Gæti saga búninganna haft mikilvæg áhrif til dæmis fyrir kvennasöguna? Er nauðsynlegt að vinna að frekari rannsóknum á sviði búningasögunnar? Er mögulegt að auka áhuga ungra sagnfræðinga og handverksfólks á þessu sviði?
Já spurningarnar voru margar en fá svör. Líklega voru þó flestir sammála um að lítil þekking væri á búningasögunni almennt. Flestir voru þó sammála því að hér væri um merka sögu að ræða. Sögu sem þyrfti að rannsaka miklu betur.
Saga búninganna
Þegar talað er um sögu búninga þá er ekki eingöngu átt við sjálfan fatnaðinn. Þar er um svo margt og miklu fleira að ræða. Á Þjóðminjasafni Íslands er varðveitt heilmikið magn af fatnaði. Þar er aðallega um að ræða sparifatnað frá 19. öld en aðeins örfá stykki eldri.
Það þarf að rannsaka hvaða efni og tillegg var fáanlegt til þessarar fatagerðar á hverjum tíma. Var efnið innflutt eða var það framleitt hér heima? Hvernig klæddist fólk hversdags og hvaða hráefni var í þeim fatnaði? Hvar er heimildirnar að finna?
Hvað er búningur? Hvaða merkingu hefur þjóðbúningur? Þurfum við að fræðast um þetta og varðveita? Er þetta eitthvað sem við þurfum að fræða ókomnar kynslóðir um? Er þetta eitthvað sem við þurfum að rannsaka sérstaklega og skrá fyrir framtíðina?
Fylltumst bjartsýni
Það er kærkomið fyrir okkur að fá svo góða og áhugasama gesti í heimsókn. Enda nýttum við okkur tækifærið og vörpuðum til þeirra öllum þessum spurningum og fleirum. Hér er risastórt verkefni framundan og til að vinna það þurfum við fleiri til starfa. Við þjóðin þurfum að vinna saman, ræða málið og komast að niðurstöðu.
Eftir heimsóknina fylltumst við bjartsýni á að við séum bara rétta að hefja þetta frábæra ferðalag. Bestu þakkir kæru samnemendur fyrir ánægjulega heimsókn. Við hlökkum til komandi ára og hver veit nema að eitthvert ykkar velji að verða okkur samferða á þessu ferðalagi um búningasöguna.
Áhugasamir eru velkomnir í menningarheimsóknir og fá leiðsögn um búningana og sögu þeirra.