Barnabúningsnámskeið
hjá Annríki – Þjóðbúningar og skart
Námskeiðið er 24 klukkustundir
- Kennt er einu sinni í viku í átta vikur, frá 18:30-21:30
- Drengjabúningur, saumað er skyrta, buxur og vesti
- Ekki gerð treyja við drengjabúning
- Nemendur prjóna sokka og húfu sjálfir. Uppskrift og garn er hægt að fá í Annríki
- Stúlknabúningur, 19. eða 20. aldar upphlutur. Samanstendur af, skyrtu, koti, pilsi, svuntu og húfu
- Nemandi fær búninginn tilsniðinn eftir máli
- Nemendur prjóna húfu sjálfir. Uppskrift og garn er hægt að fá í Annríki
- Efniskostnaður er 50-80.000 kr
- Silfurkostnaður á 20. aldar upphlut er mismunandi eða allt frá 100.000 kr
- Silfurkostnaður á 19. aldar upphlut er talsvert minni
Námskeiðsverð 110.000 kr
Leiðbeinendur eru Guðrún Hildur Rosenkjær, klæðskeri, kjólameistari og sagnfræðingur og Olga Kristjánsdóttir, kjólasveinn.
Fróðleikur um barnabúninga
Fatnaður barna frá 18. og 19. öld hefur ekki varðveist. Líklegast er að börn hafi borið svipaðan fatnað og fullorðnir. Það sést á skriflegum heimildum og teikningum. Til dæmis eru til teikningar af stúlkum frá 18. öld í búningum.
Drengjabúningar eru endurgerðir á fatnaði karla frá 18. og fram á miðja 19. öld en í smækkaðri mynd.
Farið var að sauma 20. aldar upphluti á stúlkur um 1930. Tilefnið var Alþingishátíð. Upphluturinn varð mjög vinsæll sem sparifatnaður.
Þyrí Brá og Marinó Máni á 17. júní 2014
Fjör í Hafnarfirði 17. júní
Nánar um barnabúninga
Búningurinn samanstendur af skyrtu, buxum og vesti
- Skyrtan er einföld, ljós nærskyrta, saumuð úr bómull
- Buxur eru með hnepptri lokuklauf og hnepptum axlaböndum. Þær geta verið með síðum skálmum eða hnébuxur. Buxurnar eru saumaðar úr ull; klæði eða vaðmáli. Oftast í dökkum litum þ.e. svart, blátt, grátt eða brúnt
- Vestið var oftast tvíhneppt og hægt að hneppa á báða boðunga. Á því eru allt að 18 tölur og hnappagöt. Vestið er saumað úr ull; klæði eða vaðmáli. Fóðrað með þéttu bómullarefni. Það getur verið í ýmsum litum og oft bryddað með andstæðum lit. Til dæmis blátt vesti með rauðum bryddingum
- Húfa og sokkar. Hægt er að fá uppskrift, garn og prjóna í Annríki
Búningurinn er saumaður bæði í saumavél og í höndum. Öll hnappagöt sem geta verið á milli 30-40 eru handgerð.
Ungir drengir bera ekki treyjur en gjarnan prjónaða peysu með laskaermum. Við búninginn er borin prjónuð húfa. Í háls er gjarnan hnýttur litríkur klútur úr bómull eða silki. Með hnébuxum eru bornir prjónaðir sokkar og sokkabönd, fléttuð eða spjaldofin. Áður fyrr voru notaðir sauðskinnsskór. Í dag fer best á því að vera í dökkum, einföldum skóm án alls skrauts.
Búningurinn samanstendur af skyrtu, upphlut, pilsi, svuntu og húfu
- Skyrtan er úr ljósri bómull. Afar einföld í sniði
- Upphlutur er lítil ermalaus flík (vesti). Efni eru ullarklæði, vaðmál, ullardamask eða flauel. Litir geta verið margvíslegir s.s. svart, blátt, rautt, grænt.
- Á baki eru þrjár leggingar. Ein fyrir miðju og krappir bogar sitthvoru megin við. Einnig yfir axlarsauma. Þessar leggingar geta verið úr ýmsu efni s.s. flauelisborðar, líberíborðar, eða knipplingar
- Boðungar eru skreyttir með líberíborða eða baldýringu
- Millur voru notaðar til að reima upphutinn saman. Algengt er að þær séu 4-5 pör
- Handvegir og hálsmál er bryddað með mjóum tilsniðnum renningum úr silki, ull eða flaueli. Þeir geta verið í ýmsum litum.
- Algengt er að þræða pilsið fast við upphlutinn svo búningurinn verði þægilegri í notkun.
- Pilsið er úr svörtu eða dökkbláu léttu ullarefni. Síddin er eftir smekk. Pilsið er fellt í mitti undir streng. Jafnt allan hringinn nema að framan er slétt bil. Best er að hafa pilsið með klauf að framan og þræða það á upphlutinn. Þannig verður búningurinn þægilegur í notkun
- Svuntan er felld undir mittisstreng. Hún er gjarnan höfð teinótt eða köflótt úr handofinni ull, bómull eða silki. Ýmsir litir koma til greina
- Húfa er djúp svört eða dökkblá prjónahúfa. Á húfunni er litaður ullarskúfur. Hólkur eða líberíborði hylur samskeytin húfu og skúfs. Hægt er að fá uppskrift á húfu, kaupa garn og prjóna í Annríki
Búningurinn samanstendur af skyrtu, upphlut, pilsi, svuntu, húfu og belti
- Skyrtan getur verið úr ýmsum efnum s.s. bómull, hör, polyester og nylon. Litir og mynstur hafa verið fjölbreytt í gegnum tíðina. Nú eru einlitar ljósar skyrtur úr góðu og meðfærilegu bómullarefni vinsælastar.
- Upphlutur er gjarnan saumaður úr flaueli eða ull t.d. rauðu, bláu eða svörtu
- Á baki eru tvær bogaleggingar. Handgerðir kniplingar í silfri eða gylltu eru saumaðar utan með mjórri flauelisleggingu. Samskonar skreyting er á axlarsaumum
- Stundum eru notaðir ódýrari innfluttir borðar í stað kniplinga
- Framan á boðungum eru stífir flauelisborðar. 3-4 pör millur og borðarósir eru saumaðar þar á. Borðarósirnar geta verið úr silfri eða baldýraðar úr vír
- Undir flauelisborðana eru settir teinar til að stífa upphlutinn að framan
- Í hálsmál og handvegi er bryddað með sérstöku mjóu bandi, herkúlesarbandi eða flauelisborðum
- Pilsið er alltaf svart en getur verið með kanti að neðan í sama lit og upphlutsbolur. Sídd og vídd er eftir smekk. Pilsið er fellt í mitti undir streng. Jafnt allan hringinn nema að framan er slétt bil. Best er að hafa pilsið með klauf að framan og þræða það á upphlutinn. Þannig verður búningurinn þægilegur í notkun. Í dag er mest saumað úr góðum, léttum ullarefnum
- Svuntan er felld undir mittisstreng. Hún getur verið úr ýmsum efnum og var stundum eins og skyrtan
- Höfuðbúnaður
- Prjónahúfa er svört, grunn með svörtum silkiskúf. Einnig má hafa skúfinn í sama lit og upphlutsbol
- Hólkur eða líberíborði hylur samskeytin húfu og skúfs
- Bátur er sérstakur höfuðbúnaður saumaður úr sama efni og upphlutsbolur. Skreyttur með borðum, leggingum, baldýringu eða pallíettum. Borðar eru festir við bátinn og bundið með slaufu undir höku
- Belti er notað við búninginn. Oftast belstispar og doppur saumað á flauelisteygju