Peysufatanámskeið

hjá Annríki – Þjóðbúningar og skart

Námskeiðið er 33 klukkustundir

  • Kennt er einu sinni í viku í ellefu vikur, þrjár klukkustundir í senn
  • Saumað er peysa, pils, svunta og slifsi
  • Nemandi fær búninginn tilsniðinn eftir máli
  • Sett er saman húfa
  • Efniskostnaður er ca 80.-100.000 kr

Námskeiðsverð er 200.000 kr

Leiðbeinandi er Guðrún Hildur Rosenkjær, klæðskeri, kjólameistari og sagnfræðingur

Annríki - Þjóðbúningar og skart. Telma Rún, Auður og Hanna Lind í 19. og 20. aldar peysufötum.

Auður í 19. aldar peysufötum. Hanna Lind og Telma Rún í 20. aldar peysufötum

Skrá mig á námskeið

Nánar um peysuföt

Peysuföt samanstanda af peysu, pilsi, svuntu, klút, brjósti og húfu

Peysa og pils

  • Peysan er saumuð úr ull; klæði eða vaðmáli. Hún getur verið blá eða svört

    • Þröng flík, fóðruð með bómullarfóðri
    • Hálsmál er lítið kringt
    • Á boðungum eru ásaumaðir flauelisrenningar. Þeir eru frekar breiðir
    • Ísettar ermar með litlu púffi. Flauelisrenningar eru einnig framan á ermum
    • Peysan er krækt að framan nema yfir hábarminn. Þar myndast smáopnun þar sem glittir í hvítt brjóst
  • Pilsið er saumað úr tveimur síddum af efni sem er a.m.k. 140 sm á breidd. Efnið er fellt þannig að það passi í mitti konunnar. Einkenni pilsins er fjöldi falla á bakhluta þess. Aðferðin við að fella pilsið hefur þróast mjög í gegnum árin. Ekki er ekki hægt að segja að nein ein aðferð sé rétt. Gjarnan er settur vasi á pilsið. Að neðan er það faldað með ca 30 sm skófóðri. Pilsið var ekki endilega saumað úr sama efni og peysan

Fylgihlutir

  • Brjóst er lítið hvítt, stífað léreftsstykki. Það þróaðist frá nærskyrtunni sem borin var við eldri gerð peysufatanna. Þetta stykki er skreytt á ýmsan máta með ásaumaðri blúndu, handunninni eða innfluttri. Einnig má finna brjóst með fögrum útsaumi. Brjósin eru langoftast hvít en þó má finna svört brjóst
  • Í hálsmáli var borinn silki- eða bómullarklútur
  • Svuntan er höfð styttri en pilsið. Hún er felld undir streng í mittið þannig að föllin aftan á pilsinu sjást vel. Svuntan er fest saman í vinstri hlið með hnappi eða svuntupari. Einnig voru hafðir langir endar á hvorri hlið svuntunnar og hnýtt saman að framan. Gjarnan eru notuð handofin efni, bómull eða silki. Mynstur teinótt eða köflótt
  • Húfan er djúp prjónahúfa, svört eða blá. Á efri enda húfunnar var settur ullarskúfur í ýmsum litum. Yfir samskeytin er settur hólkur eða líberíborði 
  • Skartið við 19. aldar peysuföt er aðallega hólkur á húfu. Brjóstnæla og svuntuhnappur eða svuntupör til að halda svuntunni saman að aftan

Peysuföt samanstanda af peysu, brjósti, pilsi, svuntu, slifsi og húfu

Peysa og pils

  •  Peysan er oftast saumuð úr svörtu léttu ullarefni
    • Þröng flík, fóðruð með bómullarfóðri
    • Eftir því sem leið á öldina varð hálsmálið kringdara
    • Framan á boðungum eru ásaumaðir flauelisrenningar
    • Ermarnar urðu með miklu púffi eða fellingum. Flauelisrenningar ásaumaðir framan á ermum
    • Peysan er krækt saman að framan nema yfir hábarminn. Opið framan á peysunni látið opnast meira en áður
    • Brjóstið er þar undir og breikkaði einnig til að hylja barminn
  • Pilsið er saumað úr tveimur síddum af efni sem er a.m.k. 140 sm á breidd. Efnið er fellt þannig að það passi í mitti konunnar. Einkenni pilsins er fjöldi falla á bakhluta þess. Aðferðin við að fella pilsið hefur þróast mjög í gegnum árin. Ekki er ekki hægt að segja að nein ein aðferð sé rétt. Gjarnan er settur vasi á pilsið. Að neðan er það faldað með ca 30 sm skófóðri. Pilsið er oftast í sama efni og peysan. Efnið í búningnum hefur fylgt tískusveiflum 20. aldar

Fylgihlutir

  • Brjóst er lítið hvítt, stífað léreftsstykki sem þróaðist frá nærskyrtunni. Þetta stykki er skreytt á ýmsan máta með ásaumaðri blúndu, handunninni eða innfluttri. Finna má brjóst með fögrum útsaumi. Brjósin eru langoftast hvít en þó má finna svört brjóst
  • Slifsi er þrætt við hálsmál og getur verið með ýmsu móti. Slifsi eru mjóir, ílangir renningar í ýmsum litum. Oftast saumað úr slifsi fínasta silki eða öðru fínerí. Varðveist hafa slifsi ámáluð og með útsaumi af ýmsum gerðum. Á endum var gjarna ásaumað kögur eða gengið frá þeim í spíss.  Á 20. öld varð vinsælt að hafa slifsi og svuntu úr sama efni
  • Svuntan er höfð styttri en pilsið. Hún er einnig styttri í mittið þannig að föllin aftan á pilsinu sjást vel. Svuntan er fest saman í vinstri hlið með hnappi eða svuntupari. Á 20. öld varð vinsælt að hafa svuntur og slifsi úr sama efni. Það var þó ekki algilt. Efni fylgdu tískustraumum
  • Húfan er grunn prjónahúfa með svörtum silkiskúf.  Þegar leið á 20. öldina hófu konur að sauma hana úr flaueli með svörtum löngum silkiskúf . Yfir samskeyti var settur fagurlega skreyttur hólkur
  • Skartið við peysuföt er aðallega hólkur á húfu. Brjóstnæla og svuntuhnappur eða svuntupör til að halda svuntunni saman að aftan. Þegar leið á 20. öldina fóru konur einnig að bera belti við peysufötin. Enn þann dag í dag eru deildar meiningar um hvort það eigi að gera

Peysufatanámskeið