Faldbúningur yngri

Eftir 1800

Faldbúningurinn átti eftir að taka ýmsum breytingum. Í iðnbyltingunni fleygði tækninni fram. Til varð ný vefnaðaraðferð. Nú var kleift að framleiða þynnri og liprari efni.

Með nýrri litunartækni fengust litekta dökkir litir. Litir eins og svartur og blár. Ýmist fínerí til skreytinga varð ódýrara með fjöldaframleiðslu. Þar má nefna borða, snúrur og knipl.  Fleiri gátu nú eignast slíka hluti.

Faldbúningur yngri þróast

Faldbúningur yngri varð dekkri, einfaldari og stílhreinni. Konur héldu þó áfram að sauma út í pilsin. Baldýra á upphluti, treyjur, kraga og belti.

Á 19. öld losnaði verulega um verslunarhöft á Íslandi. Þau voru afnumin 1850. Skipulagðar siglingar með varning urðu tíðari. Áhrif erlendra tískustrauma bárust til landsins. Þetta átti þátt í breytingum á íslenskum kvenbúningum á þessum tíma.

Annríki - Þjóðbúningar og skart. Auður fær aðstoð frá Hildi við að klæðast faldbúningi yngri.

Auður fær aðstoð við að klæðast faldbúningi yngri

Annríki - Þjóðbúningar og skart. Ásdís og Kristbjörg í faldbúningum yngri.

Kristbjörg í faldbúningi eldri og Ásdís er í faldbúningi yngri

Annríki - Þjóðbúningar og skart. Faldbúningur yngri sem Guðbjörg Andrésdóttir saumaði. Fagurlega skreyttur faldur, útsaumaður blómamynstri.

Fagurlega skreyttur samfellufaldur eftir Guðbjörgu Andrésdóttur

Dökkur og stílfærðari

Einkenni faldbúninga á 19. öld eru greinileg af þeim fjölda búninga og búningahluta sem varðveittir eru á Þjóðminjasafni Íslands. Greinileg þróun varð með nýjum möguleikum í efnis- og litavali.

Heimildir sýna að búningarnir urðu dekkri og stílfærðari þegar leið á öldina. Endalok faldbúnings eru um 1860.

Upphlutur

Nærskyrtan og undirpils voru þarfaþing. Mikið saumað úr ýmiskonar lérefti og flanneli. Stundum prjónað, einnig úr heimaofnum efnum. Þegar leið á öldina urðu krínólínur hluti af undirfatnaði kvenna.

Upphlutir voru saumaðir úr ullarefnum; klæði, vaðmáli. Einnig úr damaski og flaueli. Upphlutirnir dökknuðu og urðu mest bláir og svartir.

Leggingar á baki voru ýmist flauelisborðar eða kniplingar, minna um líberíborða. Skreytingar á boðungum voru gjarnan baldýring með silki og vír.  Einnig líberíborðar.

Dökkir upphlutir voru oft bryddaðir með rauðu í handveg og hálsmál.

Faldtreyja er saumuð úr svörtu eða svarbláu klæði, minna um flauel. Skreytingar t.d. baldýring, eru meira eintóna í silfri eða gylltum vír. Bak er lagt með hefðbundnum leggingum. Framan á ermum eru breiðar flauelisleggingar en ekki uppslög.

Kragar eru ekki lengur saumaðir fastir á treyjuna. Skreytingar urðu meira eintóna og knipl varð vinsælt. Kragarnir urðu þynnri og stífari.

Niðurhlutur

Samfella tók við eftir aldamótin 1800 en hún er alltaf svört eða blá. Skreytingar voru sambærilegar og áður en mynstur breyttust eftir tísku og tíðaranda. Skreyting á svuntu er venjulega höfð hærri og meiri svo hún verði greinileg.

Höfuðbúnaður

Höfuðbúnaður er spaðafaldur. Form hans þróaðist nokkuð er leið á öldina en nokkur eintök hafa varðveist. Notkun hans lagðist af með nýjum höfuðbúnaði við skautbúng.

Helstu breytingar

Helstu breytingar á faldbúningunum voru:

  • Litirnir svartur og blár urðu allsráðandi á 19. öld
  • Svuntan og pilsið verður ein flík „samfella“
  • Upphluturinn dökknar og síkkar í mittið
  • Treyjan dökknar og síkkar
  • Mynsturgerðir breyttust. Útsaumsbekkir og baldýringsmynstur. Leggingar voru vinsælar sem og knipl
  • Kraginn losnaði frá hálsmáli treyjunnar.  Eftirleiðis borinn sem sérstakur gripur með hálsklút
  • Sérstakur höfuðbúnaður, spaðafaldur varð til. Unninn úr pappír og stífaður með teinum. Fóðraður með lérefti og hör. Festur saman með títuprjónum
  • Spaðafaldur var festur á höfuðið með léreftshúfu. Þar utanyfir var vafinn klútur

Djúpar prjónahúfur

Um aldamótin 1800 byrjuðu konur að prjóna djúpar húfur að hætti skólasveina. Það var biskupsfrúin í Skálholti sem gerði það fyrst.

Í upphafi voru húfurnar bláar, síðar urðu þær svartar. Ullarskúfur var í ýmsum litum. Til að hylja samskeytin notuðu þær vírþráð eða borða. Seinna voru hólkar notaðir.

Hempur notuðu konur sem utanyfirflík. Boðungar voru gjarnan skreyttir. Það voru flosaðir borðar eða flauelisleggingar. Hatt báru konur einnig yfir faldinn. Fátt annað var til skjóls á ferðalögum.

Annríki - Þjóðbúningar og skart. Auður í faldbúningi yngri. Hildur fylgist með.

Auður í faldbúningi yngri

Faldbúningur yngri