Peysuföt

Hversdags eða spari

Peysuföt er kvenbúningur sem konur báru hversdagslega og til spari. Hann hefur þróast í gegnum aldirnar eða allt frá 15.-16. öld. Búningurinn dregur nafn sitt af efri hlutanum sem var upprunalega prjónuð peysa.

Búningurinn samanstendur af peysu, pilsi, svuntu, slifsi, brjósti og húfu.

Á fyrri hluta 19. aldar þróaðist peysan í að vera saumuð flík. Eftir 1870 var ekki algegnt að prjóna þær enda mikil vinna að gera slíkt.

Á 19. öld voru peysufötin gjarnan blá en eftir miðbik aldarinnir urðu þau svört og eru það enn í dag. Þannig þróaðist peysan eftir tísku og framboði á efnum og tillegi hverju sinni.

Ullarband í peysurnar var auðvelt að ná í. Það var unnið heima á bæjum. Einnig var flutt inn ullarband sem hæglega gæti hafa verið notað í útsaum og fínni prjónaskap.

Eitt af aðaleinkennum peysunnar er lítill felldur listi á baki hennar sem kallast stakkur. Hefur peysan stundum verið nefnd stakkpeysa eftir honum. Einnig hafa peysuföt verið nefnd húfubúningur eftir prjónuðu húfunni sem konur bera við hann.

Í dag er enn verið að sauma peysuföt. Þá stendur valið á milli 19. aldar peysufata eða 20. aldar peysufata.

Þrjár konur í peysufötum, sitja á grindverki.

Telma Rún, Auður og Hanna Lind í 19. og 20. aldar peysufötum

Stakkpeysa í vinnslu, prjónað á 14 prjóna og fytjað upp 1300 lykkjur

Stakkpeysa á prjónunum

Prjónuð stakkpeysa

Í Annríki – Þjóðbúningar og skart fer fram rannsóknarvinna og unnið er út frá heimildum. Það hefur lengi verið ætlunin að prjóna stakkpeysu.  Ekki eru til neinar uppskriftir til að fara eftir.

Á söfnum hafa hinsvegar varðveist nokkrar peysur. Hildur fékk tækifæri til að telja eina slíka út. Í þeirri peysu eru fitjaðar upp 1300 lykkjur.

Þeim fækkar um meira en helming þegar stakkurinn er dreginn saman. Fyrir þennan lykkjufjölda þarf mjög fínt ullarband og prjóna nr. 1,25. Í þessari peysu var notað innflutt húfuband.

Handskrifuð uppskrift frá 19. öld

Fyrir tilviljun fannst handskrifuð uppskrift frá því um miðja 19. öld. Hún var málsett með spönnum, fingrum og þumlungum. Þær mælieiningar eru ekki sérlega þekktar í dag.

Uppskriftin rakti sig upp að handvegi en þar endaði hún. Í henni kemur fram að fitja eigi upp ríflega 700 lykkjur á 14 prjóna. Ekki var til hringprjónn á þessum tíma. Fyrir þennan lykkjufjölda var hægt að nota aðeins grófara garn og prjóna nr. 1,5.

Prjónaskapurinn hefst

Hildur hefur orðið:

Í júní 2016 hófst ég handa við verkið. Byrjaði á að fitja upp í báðar peysurnar. Notað var innflutt band og 14 prjónar eins og uppskriftin sagði til um. Ég vissi lítið hvað í vændum var. Varð því bara að láta á þetta reyna.

Ég taldi eðlilegast að prjóna í hring . Ég hafði lesið að oft hefði verið prjónað úr fleiri en einum hnykli í einu. Þetta ákvað ég að prófa.  Með tímanum leiddi eitt af öðru. Þannig vatt verkinu fram.

Ýmsar spurningar komu upp en alltaf leystust málin á einhvern máta. Þegar kom að úrtöku fyrir axlir og ermar nýtti ég mér uppskriftina sem ég hafði talið út. En þar sem hún var úr talsvert fínna bandi kom hún ekki nógu vel út í byrjun.

Þá var ekkert annað að gera en að rekja upp og byrja aftur.  Að lokum varð til prjónuð flík sem ég þæfði létt. Gekk frá með flaueli á boðungum og framan á ermum.  Peysan er í stærð 38-40.

Blá stakkpeysa

Að þessu verki loknu ákvað ég að hefjast handa á enn annarri peysu. Nú var fitjað upp á ríflega 800 lykkjur á 14 prjóna nr. 1,5.

Ullarbandið er innflutt og prjónafesta svipuð og á þeirri fyrri. Að þessu sinni var prjónuð blá peysa. Ég gat nýtt mér uppskriftina af fyrri peysunni. Þurfti þó að taka tillit til aukins lykkjufjölda.

Nú er prjónaskapnum lokið og peysan bíður eftir frágangi.  Stærðin gæti orðið ca 42-44.

Stakkpeysa í vinnslu, prjónað á 14 prjóna og fytjað upp 1300 lykkjur

Fitjað upp á 14 prjóna

Stakkpeysa í vinnslu, prjónað á 14 prjóna og fytjað upp 1300 lykkjur

Lokið við stakk

Peysuföt