Upphlutur 20. aldar

Eftir 1900

Nafnið á við um upphlutsbúninga eftir 1900.

Búningurinn hefur verið saumaður úr ýmsum efnum. Allt eftir efnisúrvali sem í boði var hverju sinni. Notað hefur verið ullarklæði. Einnig silkisatín, polyestersatín og flauel. Nú síðari ár eru mest notuð létt ullarefni. Búningurinn er alltaf svartur.

Skreytingar

Á baki eru tvær bogaleggingar. Þær eru skreyttar fínlegum kniplingum í silfri eða gylltu. Kniplingar eru saumaðar utan með mjórri flauelisleggingu. Samskonar skreyting er á axlarsaumum.

Á framstykki eru mjóir hlýrar sem saumast við axlir. Framan á boðungum eru stífir flauelisborðar.  Þar á saumast millur og borðarósir. Rósirnar geta verið úr silfri. Einnig geta þær verið baldýraðar með vír. Undir flauelisborðana eru settir teinar. Þeir stífa upphlutinn að framan.

Í upphafi aldarinnar voru millurnar stundum 10 stk. eða 5 pör. Í dag eru alltaf 8 stk. eða 4 pör með reim og nál. Skartið getur verið ýmissar gerðar. Steypt eða handunnið víravirki. Alltaf úr silfri og gyllt ef þess er óskað.

Í hálsmál og handvegi er bryddað með sérstöku mjóu bandi. Herkúlesarbandi eða flauelisborða, alltaf svart.

Í mitti er gengið frá með svokölluðu skjuði sem gengur ofan í pilsið. Á mittislista eru saumaðir krókar til að krækja pilsið upp á.

Belti er notað við þennan búning.

Annríki - Þjóðbúningar og skart. 20. aldar upphlutur tilbúinn

 20. aldar upphlutur

Annríki - Þjóðbúningar og skart. Næla. 20. aldar upphlutur.

Í dag eru ljósar og svartar skyrtur vinsælar. Næla skreytir skyrtuna

Skyrta

20. aldar skyrtan getur verið úr ýmsum efnum. Oftast eru þær úr þunnum efnum s.s. bómull, hör, polyester og nylon. Litir og mynstur hafa einnig verið fjölbreytt. Nú eru einlitar ljósar eða svartar skyrtur vinsælastar.

Snið eru með ýmsu móti. Þær hafa þróast allt eftir efnisframboði og tísku á hverjum tíma.

Skyrturnar geta verið sniðnar upp í háls eða með kringdu hálsmáli. Heilar að framan eða slå om.

Ermar eru gjarnan rykktar á kúpu og undir ermalíningar. Þær eru hnepptar saman með ermahnöppum (mannséttur).

Pils

Oftast er notað sama efni í pils við 20. aldar upphlut og er í efri parti. Það er saumað úr tveimur síddum eða u.þ.b. 2,50-3 metrar í vídd.

Í mittið er það fellt undir streng svo passi hverri konu. Mest er það fellt að aftan og að framan er slétt bil. Í pilsstreng eru saumaðar lykkjur og pilsið er krækt upp á upphlutinn svo allt sitji vel.

Í vinstri hlið er klauf til að komast í pilsið. Þar er gjarnan vasi.

Í fald er saumað skófóður.

Svunta

Svunta er samskonar og við peysuföt. Felld undir mittisstreng. Styttri en mittisvíddin u.þ.b 20 sm. Og styttri en pilsið u.þ.b. 20 sm. Þetta hefur líka verið háð tísku.

Svuntan er fest saman í vinstri hlið með tölu. Hún getur verið úr ýmsum efnum. Stundum eins og skyrtan. Þarna ræður mest smekkur og efnisúrval hverju sinni.

Annríki - Þjóðbúningar og skart. Upphlutsbelti með doppum.

Pilsið er fellt að aftan en slétt að framan. Knipl er meðfram flauelisleggingum á baki

Annríki - Þjóðbúningar og skart. Kot með skarti og belti, 20. aldar upphlutur.

Víravirkismillur og borðarósir skreyta upphlutinn

Annríki - Þjóðbúningar og skart. Ermahnappar á 20. aldar upphlut.

Ermahnappar oft í stíl við annað skart

Millur

Millur eru oftast smíðaðar úr silfri. Einnig ódýrari málmum. Gylltar ef þess er óskað. Millur geta verið frá 8 – 14 stykki. 4 – 7 pör með reim og nál. Þegar leið á 20. öldina var lang algengast að vera með 4 pör af millum.

Millur geta verið af ýmsum gerðum. Steyptar millur eftir gömlum mynstrum eða handgerðar víravirkismillur. Víravirki varð mjög vinsælt á 20. öld.

Borðarósir

Löng hefð fyrir því að skreyta boðunga á upphlutnum með blómum. Baldýraðri borðar voru algengir í upphafi 20. aldar. Blómamynstrin eru fjölbreytt. Þau hafa þróast í gegnum aldirnar.

Er leið inn á 20. öldina var eingöngu notaður vír í baldýringuna. Í kreppunni á 3. áratug aldarinnar varð skortur á baldýringsvír.

Þá hófu gullsmiðir að smíða borðarósir. Þær fyrstu voru unnar úr ágröfnum silfurplötum. Voru þær klipptar út og útbúin blóm úr þeim. Blóm sem höfðu svipað útlit og baldýring.

Siðar var einnig farið að smíða borðarósir í víravirki. Um það leyti fóru gullsmiðir að bjóða upp á heilu settin í sama mynstri.

Ermahnappar

Ermhnappar eru notaðir til að hneppa saman skyrtuermum við úlnlið. Hneppt er eins og á herramannséttum. Ermahnapparnir hafa sama lag og herrahnappar en eru minni.

Ekki er alveg ljóst hvenær konur fóru að nota slíka hnappa. Líklega hefur það orðið með 20. aldar upphlutnum.

Hnappar eru skreyttir með fjölbreyttum aðferðum oft í stíl við annað skart.

Höfuðbúnaður

Í lok 19. aldar var húfan orðin grunn prjónahúfa með svörtum silkiskúf. Þegar leið á 20. öldina hófu konur að sauma hana úr flaueli með svörtum löngum silkiskúf og fögrum silfur hólkum.

Húfan hefur eins og aðrir búningahlutar þróast mjög eftir aðstæðum og tísku hverju sinni.

Við 20. aldar upphlut er notuð grunn svört prjónahúfa. Eða flauelishúfa með löngum svörtum silkiskúf. Hólkur hylur samskeytin.

Hólkar

Hólkar eru sívalningar. Oft um 4-6 sm á lengd og 1,2-2 sm í þvermál. Þeir eru oftast úr silfri. Einnig úr ódýrari málmum.

Fjölbreytileiki hólkanna er gríðarlega mikill. Bæði í formi og skreytingum.

Oftast eru hólkar sívalir en til eru:

  • kónískir hólkar
  • hólkar sem mjókka frá báðum endum að miðju
  • snúnir hólkar
  • hólkar brotnir upp í 4-6 hliðar

Skreytingar geta verið einföld eða flókin ágrafnin mynstur. Pressuð mynstur og gallerý sem eru innfluttar skreytingar. Víravirki er þá útbúið í sérstakan hólk. Því er smokrað yfir sívalning.

Líberíborði var einnig notaður í stað hólks. Hann var saumaður utan um samskeytin. Varðveist hafa baldýraðir hólkar.

Húfuprjónar

Húfuprjónar eru í dag aðallega til skrauts. Þeir hafa verið notaðir til að festa húfuna við hárið.

Á milli tveggja oddhvassra prjóna eru tvær fínlegar keðjur u.þ.b. 5-7 sm langar. Sú neðri er lengri og á hangir lítill gripur.

Hjarta eða blóm gjarnan úr víravirki.  Við samskeyti prjóna og  keðju er sett rósetta eða lítið víravirkisblóm.

Annríki - Þjóðbúningar og skart. Hólkur á skotthúfu við 20. aldar upphlut.

Ýmist er borin grunn svört prjónahúfa eða flauelishúfa með löngum svörtum silkiskúf. Hólkur hylur samskeytin húfu og skúfs

Annríki - Þjóðbúningar og skart. Húfuprjónn á skotthúfu við 20. aldar upphlut.

Húfuprjónar eru aðallega til skrauts í dag

Annríki - Þjóðbúningar og skart. Fjórir mismunandi hólkar í gerðinni.

Beltispar

Annríki - Þjóðbúningar og skart. Telma í 20. aldar upphlut.

Næla, ermahnappar, húfuprjónn og hólkur

Annríki - Þjóðbúningar og skart. Telma í 20. aldar upphlut.

Nælur eru til í ýmsum gerðum

 Belti                                                                                      

Belti er eingöngu notað við 20. aldar upphlut. Getur það verið stokkabelti. Einnig belstispar og doppur saumað á flauelisteygju.

Belti geta verið af ýmsum gerðum. Steypt eða víravirki. Unnið úr silfri og gyllt ef þess er óskað. Beltið stundum í stíl við annað skart en ekki alltaf.

Stokkabelti nefnast belti sem hlekkjuð eru saman úr málmstokkum svo passar í mittið. Þau hafa oftast skjöld í miðju með krók á. Krókurinn krækist í einn stokkinn. Stokkarnir eru allir jafnstórir u.þ.b. 4-7 sm langir.

Beltispar er skjöldur og tveir stokkar. En það getur líka verið tveir skyldir sem krækjast saman. Einnig nokkrar hálfkúlur 2-6 eftir smekk og efnahag.

Skreytiaðferðir eru fjölmargar:

  • stönsuð mynstur
  • ágrafin einföld og flókin mynstur
  • snúrulagt og kornsett
  • loftverk og drifsmíði
  • víravirki

Flestar þessara aðferða er handverk. Mjög algengt er einnig að steypa belti með fjölbreyttum mynsturgerðum.

Nælur

Nælur eru upprunalega nytjahlutur. Þær héldu saman hálsmáli skyrtunnar.  Síðar urðu þær aðallega skart.

Ýmsar gerðir eru til. Steyptar eða handsmíðaðar. Stundum í stíl við annað silfur en ekki alltaf.

Fjölbreytileiki þeirra í formi er mikill:

  • hringlaga
  • sporöskjulaga
  • langar og mjóar
  • hálfkúlur
  • samsettar millur
  • margt fleira

Skreytiaðferðir eru einnig gríðarlega fjölbreyttar. Oft í sama stíl og beltispörin.

 Svuntuhnappar og svuntpör

Svuntuhnappar og -pör festa svuntuna saman í mitti. Svuntuhnappur er stakur. Plata með fæti sem getur verið skreytt með ágröfnu mynstri eða lítið víravirkisblóm. Hnappurinn er hnepptur í gegnum tvö hnappagöt. Þau eru  saumuð á hvorn enda mittisstrengs.

Svuntupar eru tvö stykki sem krækjast saman.  Stundum ágrafin plata eða víravirkisstykki sem líkist millu. Á öðru stykkinu er krókur og hinu lykkja. Á hvorum enda er fótur sem hneppist í hnappagat. Þannig fer hvort stykki í eitt hnappagat. Og krækir síðan svuntuna saman.

Heppilegra er að nota ásaumaða tölu þar sem beltið getur skemmt fínlegu gripi.

Annað skart

Annað skart sem aðallega er notað við 20. aldar upphlut:

  • armbönd
  • eyrnalokkar
  • hálsmen

Skartið er oft smíðað með sömu aðferð og annað búningaskart.

Annríki - Þjóðbúningar og skart. Kniplingar á 20. aldar upphlut.

Fagrir kniplingar á axlasaumi

20. aldar upphlutur